Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1133  —  607. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður er verði 2. málsl., svohljóðandi: Aðsetur hans er á Selfossi.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á síðari hluta síðasta árs kom fram tillaga frá landbúnaðarráðherra um að kannað yrði hvort hægt væri að flytja aðsetur Lánasjóðs landbúnaðarins frá Reykjavík. Var það tekið til skoðunar í stjórn sjóðsins sem komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri því til fyrirstöðu að sjóðurinn gæti þjónað viðskiptamönnum sínum frá öðrum stað en Reykjavík. Eftir ítarlega könnun lagði stjórn Lánasjóðsins til við landbúnaðarráðherra að höfuðstöðvar sjóðsins yrðu fluttar á Selfoss og hefur hann fallist á þá tillögu.
    Nokkur vinna hefur verið lögð í fyrirhugaðan flutning sjóðsins. Þá var nýráðnum fram­kvæmdastjóra hans gerð grein fyrir fyrirhugðum flutningi er hann var ráðinn til starfsins.
Það sem sett hefur strik í reikninginn í þessum áformum er dómur Hæstaréttar frá 18. des­ember 1998 þar sem ákvörðun umhverfisráðherra um að flytja starfsemi Landmælinga Ís­lands til Akraness var dæmd ólögmæt þar eð ráðherra hefði ekki aflað sér lagaheimildar fyrir flutningi stofnunarinnar. Í dómi Hæstaréttar segir að þótt ekki séu bein fyrirmæli um það í lögum að ríkisstofnun skuli staðsett í Reykjavík verði ekki talið að það eitt gefi ráðherra frjálst val um hvar hún skuli vera. Þá megi helst skýra vöntun á ákvæðum um þetta í lögum með því að fyrirmæli séu í stjórnarskrá um staðsetningu ráðuneyta. Hafi það verið talið svo sjálfsagt fram á hin síðari ár að stofnanir, sem undir þau heyrðu, hefðu einnig aðsetur í höfuðborginni að ekki þyrfti að taka það fram í lögum.
Með hliðsjón af framangreindum dómi Hæstaréttar og stöðu málsins að öðru leyti telur nefndin nauðsynlegt að afla lagaheimildar þar sem kveðið er á um að aðsetur Lánasjóðs landbúnaðarins skuli vera á Selfossi.